Ályktanir KlassÍs

Reykjavík 14. júní 2024

Yfirlýsing vegna stöðu frumvarps um Þjóðaróperu

Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi (Klassís) ítrekar eindreginn og einlægan stuðning sinn við frumvarp um Þjóðaróperu. 

Margra ára fagleg vinna og samráð þvert á listasamfélagið liggur að baki frumvarpinu og nýtur það víðtæks stuðnings eins og umsagnir um frumvarpið bera vitni um. Þrátt fyrir að ekki hafi gefist tími á nýliðnu þingi til að afgreiða frumvarpið, fögnum við yfirlýsingu menningar- og viðskiptaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, um að frumvarpið verði lagt fram á ný á haustþingi og að fyrsta ár starfsemi Þjóðaróperu sé þegar að fullu fjármagnað.

Það hefur verið eitt helsta keppikefli innan óperugeirans á Íslandi að tryggja starfsumhverfi söngvara. Verði frumvarpið að lögum mun það verða mikið framfaraskref fyrir stétt klassískra söngvara. Til verða fastar stöður fyrir einsöngvara og kórsöngvara, og lagt er upp með mun meiri starfsemi en verið hefur undanfarin ár. Einnig mun samstarf við grasrót og landsbyggðina bjóða upp á spennandi möguleika og nýta betur þá auðlind sem býr í okkar klassísku söngvurum um land allt. Óperustúdíó í samstarfi við LHÍ veitir tækifæri fyrir unga söngvara til að þjálfa sig og þroska sem listafólk. Stofnun Þjóðaróperu er mikilvægt fyrsta skref í átt að nýrri framtíðarsýn fyrir sviðslistir á Íslandi.

Klassís, sem telur tæplega 140 söngvara sem lokið hafa löngu og sérhæfðu háskólanámi í söng, telur afar brýnt að sköpuð séu fagleg umgjörð um óperuflutning og tryggur starfsvettvangur fyrir söngvara. Klassís ítrekar því mikilvægi þess að Alþingi taki frumvarpið snemma til meðferðar á haustþingi, svo ekki verði frekari töf á því að söngvarar geti starfað við sinn fagvettvang á ný í nýrri og glæsilegri Þjóðaróperu.

Stjórn Klassís

Reykjavík 20. febrúar, 2024

Yfirlýsing Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, Klassís, vegna frumvarps um Þjóðaróperu

Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi, Klassís, fagnar þeim merka áfanga í sögu sönglistar á Íslandi að fram sé komið það frumvarp um Þjóðaróperu sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, leggur nú fram. Félagið lýsir eindregnum stuðningi við þau áform sem fram koma í frumvarpinu um stofnun Þjóðaróperu.

Klassís bindur miklar vonir við að frumvarp þetta verði að lögum sem fyrst. Enda hefur það lengi verið eitt helsta keppikefli innan óperugeirans á Íslandi að tryggja starfsgrundvöll söngvara eða allt frá því að Ragnhildur Helgadóttir lagði fram þingsályktunartillögu um fastráðningar söngvara við Þjóðleikhúsið fyrir um 70 árum.

Með frumvarpi þessu verður óperulistin lögbundið sviðslistaform til jafns við leiklist og danslist. Með samlegð við Þjóðleikhús skapast grundvöllur til samfelldrar starfsemi, fastráðninga söngvara, fjölbreyttra atvinnutækifæra fyrir söngvara og ýmsa aðra hópa listamanna og spennandi möguleikar til nýsköpunar og framþróunar óperulistformsins, sem mun loks njóta jafnræðis á við leiklist og danslist.

Reykjavík 29. september 2023

Ályktun stjórnar Klassís, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, vegna stöðu Salarins í Kópavogi

Stjórn Klassís, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, lýsir þungum áhyggjum yfir áformum bæjarstjórnar Kópavogsbæjar um að bjóða út starfsemi Salarins í Kópavogi.

Salurinn í Kópavogi var fyrsti tónleikasalur landsins sem var sérhannaður með kammertónlist í huga og hefur verið heimili fyrir frábærar tónleikaraðir klassískrar tónlistar á borð við Tíbrá og Syngjandi í Salnum.

Með því að bjóða starfsemina út telur Klassís að hlutur klassískrar tónlistar á fjölum Salarins skerðist verulega eða hverfi með öllu, og bitni því á starfsmöguleikum félagsmanna Klassís. 

Það er mat Klassís að Kópavogsbær, sem lengi vel stóð framar flestum öðrum sveitarfélögum í menningarmálum, taki hér stórt skref afturábak í uppbyggingu menningar og lista í bænum.

VIð skorum á bæjarstjórn Kópavogsbæjar að endurskoða þessi áform sín og sýna í verki að Kópavogsbær sé enn sá menningarbær sem hann áður var.

Reykjavík, 30. ágúst 2023

Söngvarar lýsa yfir stuðningi við þjóðaróperu

Í gær, þriðjudaginn þann 29. ágúst 2023 var haldinn félagsfundur Klassís í húsakynnum Færeyska Sjómannaheimilisins – Hotel Ørkin. Fundurinn var afar fjölmennur. Tæplega 80 íslenskir söngvarar sátu fundinn. Á fundinum fóru fram opin skoðanaskipti og umræður um framtíðarskipan óperumála. Fundurinn samþykkti einhljóða að lýsa stuðningi við stofnun þjóðaróperu. Og sömuleiðis að skora á stjórnvöld að tryggja samfellu í óperustarfsemi á Íslandi þar til þjóðaróperan tekur formlega til starfa.

Stjórn Klassís

Reykjavík, 25. ágúst 2023

Yfirlýsing Klassís 

vegna áskorunar Íslensku óperunnar til stjórnvalda

Vegna áskorunar Íslensku óperunnar til stjórnvalda vill Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi, Klassís, ítreka stuðning sinn við áform menningar- og viðskiptaráðuneytisins um stofnun þjóðaróperu. Félagið telur að með stofnun þjóðaróperu muni í fyrsta sinn skapast raunverulegur starfsgrundvöllur fyrir óperusöngvara á Íslandi.

Klassís skorar jafnframt á stjórnvöld að sjá til þess að ekki verði dregið úr fjárframlögum til óperustarfsemi þar til þjóðaróperan tekur til starfa. Sambærilegu fé og runnið hefur til Íslensku óperunnar verði t.a.m. veitt í samkeppnissjóð um óperuflutning.

Óperulist fékk sérstakan sess í sviðslistalögunum 2019. Söngvarar og allt listafólk sem kemur að óperuflutningi, á að njóta jafnræðis á við kollega sína í öðrum sviðslistum, hvað varðar starfsvettvang og starfsskilyrði. Listforminu skal einnig vera tryggð fjármögnun til lengri tíma á sama hátt og leikhúsi og danslist. Eins skulu vera til stöðugildi á vegum ríkisins sem ráðstafað er til söngvara hvort sem þeir eru að syngja í óperukór eða einsöng.

Félagar Klassís eru 119 talsins og starfa bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Markmið félagsins er m.a. að efla starfsvettvang klassískra söngvara á Íslandi og þrýsta á um að fagleg sjónarmið séu ráðandi og faglegir starfshættir viðhafðir. Klassís telur að með stofnun þjóðaróperu verði þessum markmiðum náð fram og grundvöllur skapist til fastráðninga söngvara. Félagið lítur meðal annars til starfsumhverfis leikara hjá Þjóðleikhúsinu, hljóðfæraleikara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og dansara hjá Íslenska dansflokknum. 

Félagsfundur Klassís lýsti vantrausti á stjórn Íslensku óperunnar og óperustjóra árið  2021 vegna stjórnunarhátta. Meðal þess sem Klassís hefur gagnrýnt er hvernig Vinafélagi Íslensku óperunnar var ýtt út úr stjórn með umdeildum breytingum á samþykktum félagsins. Þar með var girt fyrir lýðræðislega aðkomu að stjórn Íslensku óperunnar auk þess sem sögulegt aðhaldshlutverk Vinafélagsins gagnvart Íslensku óperunni var endanlega afnumið. 

Þá minnir félagið á að áform um að ríkið taki við rekstri óperu, samræmast óskum stofnenda Íslensku óperunnar um framtíð stofnunarinnar, samkvæmt 8. grein samþykkta Íslensku óperunnar frá 2013:  „Leggist starfsemi Íslensku óperunnar af einhverjum ástæðum niður skulu eignir hennar varðveittar undir stjórn þriggja manna ráðs sem skipað er af Vinafélagi Íslensku óperunnar uns komið hefur verið á fót að nýju sambærilegri eða svipaðri starfsemi, en þá má verja eignunum til styrktar henni“. Þessum samþykktum var síðar breytt með umdeildum hætti haustið 2019.

Klassís hvetur stjórn Íslensku óperunnar til að taka ábyrgð á stöðunni sem upp er komin. Fjöldi óperuunnenda og söngvara á Íslandi bera hlýjan hug til Íslensku óperunnar, sögu hennar og þess gifturíka starfs sem stofnendur unnu og vonast margir til þess að þjóðarópera verði að einhverju leyti byggð á hennar grunni. Til þess að svo megi verða þarf stjórn Íslensku óperunnar að sleppa takinu, sýna samstöðu með öllum þeim sem að faginu koma og fagna áformum sem munu efla óperustarfsemi, styrkja starfsvettvang söngvara og auðga sviðslistalífið í landinu.

Virðingarfyllst,

Stjórn Klassís