Reykjavík 20. febrúar, 2024
Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi, Klassís, fagnar þeim merka áfanga í sögu sönglistar á Íslandi að fram sé komið það frumvarp um Þjóðaróperu sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, leggur nú fram. Félagið lýsir eindregnum stuðningi við þau áform sem fram koma í frumvarpinu um stofnun Þjóðaróperu.
Klassís bindur miklar vonir við að frumvarp þetta verði að lögum sem fyrst. Enda hefur það lengi verið eitt helsta keppikefli innan óperugeirans á Íslandi að tryggja starfsgrundvöll söngvara eða allt frá því að Ragnhildur Helgadóttir lagði fram þingsályktunartillögu um fastráðningar söngvara við Þjóðleikhúsið fyrir um 70 árum.
Með frumvarpi þessu verður óperulistin lögbundið sviðslistaform til jafns við leiklist og danslist. Með samlegð við Þjóðleikhús skapast grundvöllur til samfelldrar starfsemi, fastráðninga söngvara, fjölbreyttra atvinnutækifæra fyrir söngvara og ýmsa aðra hópa listamanna og spennandi möguleikar til nýsköpunar og framþróunar óperulistformsins, sem mun loks njóta jafnræðis á við leiklist og danslist.