Starfsumhverfi klassískra söngvara

17. janúar 2022

Stjórn fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, KlassÍs, lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu og starfsumhverfi klassískra söngvara á Íslandi eftir úthlutun úr starfslaunasjóði tónlistarflytjenda. 

Í ár hlutu einvörðungu þrír klassískir söngvarar úthlutun úr sjóðnum í samtals 22 mánuði. Árið 2021 hlutu 12 klassískir söngvarar úthlutun í samtals 73 mánuði. Ráðstafanir vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafa haft þau áhrif að starfsgrundvöllur tónlistarflytjenda og sviðslistafólks hefur hrunið. 

Starfsumhverfi klassískra söngvara á Íslandi var slæmt fyrir COVID-19 faraldurinn. Í janúar 2021 lýsti KlassÍs yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar. Þrátt fyrir að ríkið hafi styrkt starfsemi Íslensku óperunnar í áratugi hefur lítil uppbygging átt sér stað hjá stofnuninni hin síðari ár, sem miðar að því að styrkja starfsvettvang söngvara til lengri tíma. Engar fastar stöður fyrir söngvara eru í boði hjá Íslensku óperunni.  

Föst stöðugildi fyrir klassískt menntaða söngvara eru ekki í boði hjá opinberum tónlistar- og sviðslistastofnunum hvort sem um er að ræða kór- eða einsöngvara. Til samanburðar má nefna að ríkið styrkir Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn og tryggir þar ákveðinn fjölda fastra stöðugilda leikara, dansara og hljóðfæraleikara. 

Af framangreindum ástæðum má ljóst vera að klassískt menntaðir söngvarar treysta mjög á úthlutanir úr launasjóði tónlistarflytjenda til að verkefni þeirra geti orðið að veruleika. Félagar í KlassÍs eru 105 talsins og eru starfslaunasjóðir listamanna mikilvægur vettvangur fyrir þennan hóp listamanna.

Úthlutunin í ár nemur samtals 22 mánuðum, kr. 490.920,-  á mánuði í verktakagreiðslu sem gera samtals kr. 10.800.240,- eða sem samsvarar kostnaði við eitt launað stöðugildi leikara við Þjóðleikhúsið, samkvæmt opinberum tölum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. 

Í fyrra fengu tónlistarflytjendur 315 mánuði til úthlutunar en fjöldinn lækkaði í 180 mánuði í ár.  Sömu sögu er að segja um sviðslistasjóð þar sem úthlutun lækkar í 190 mánuði úr 307 mánuðum í fyrra. Í ljósi alvarlegrar stöðu tónlistarflytjenda og sviðslistafólks, vegna faraldursins, sem enn geisar, er þessi ákvörðun af hálfu yfirvalda óskiljanleg.

Stjórn KlassÍs skorar á stjórnvöld að leiðrétta þessa stöðu án tafar og auka mánaðafjölda listamannalauna sem úthlutað er til tónlistarflytjenda- og sviðslistasjóðanna. Ennfremur óskar stjórn KlassÍs þess að horft sé sérstaklega til erfiðrar stöðu klassískt menntaðra söngvara þegar teknar eru ákvarðanir um skiptingu þeirra fjármuna sem renna til tónlistarflytjenda og sviðslistafólks. 

Rétt er að minna á að klassískir söngvarar gegna mikilvægu hlutverki í tónlistar- og sviðslistalífi Íslendinga.  

Virðingarfyllst,

Sjórn KlassÍs