Erindi til nefndar um stofnun Þjóðaróperu

ÁLYKTUN FÉLAGSFUNDAR KLASSÍS

FAGFÉLAGS KLASSÍSKRA SÖNGVARA Á ÍSLANDI 

10. janúar, 2021

Á fjölmennum félagsfundi Klassís, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, þann 10. janúar 2021, var samþykkt eftirfarandi ályktun varðandi stofnun þjóðaróperu á Íslandi:

Klassís, Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi, fagnar því að nefnd um stofnun þjóðar- óperu hafi nú tekið til starfa, og vonar að vinna nefndarinnar muni skila sér í bættum og tryggari starfsvettvangi fyrir íslenska óperusöngvara.

Íslenskir óperusöngvarar hafa lengi verið meðal fremstu listamanna þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi og undanfarna áratugi hafa yfir 70 söngvarar starfað við óperu- hús erlendis. Hundruð söngnemenda nema við tónlistar- og söngskóla landsins, auk þess sem margir leggja stund á söngnám við LHÍ og við tónlistarháskóla erlendis. Þrátt fyrir þennan fjölda óperusöngvara hefur ekki tekist að byggja upp tryggan starfsvettvang á Íslandi fyrir þessa stétt og hafa því margir söngvarar þurft að setjast að erlendis til að stunda sína vinnu, annaðhvort fastráðnir við óperuhús eða í lausa- mennsku. Þeir sem kjósa að búa á Íslandi þurfa yfirleitt að sinna öðrum störfum með- fram söngnum. Þetta fyrirkomulag er óásættanlegt fyrir stétt óperusöngvara og ekki í samræmi við það sem gengur og gerist hjá öðrum tónlistar- og sviðslistastéttum á Íslandi.

Íslenska óperan varð til á sínum tíma úr grasrót óperusöngvara og meginmarkið hennar var að búa til vettvang á Íslandi þar sem íslenskir óperusöngvarar gætu sinnt sínu fagi. Draumurinn var að óperustarfsemi myndi vaxa og dafna og að óperusöng- varar myndu með tíð og tíma geta valið að búa á Íslandi og starfa þar við sitt fag. Þessi draumur hefur ekki enn ræst. Á síðustu misserum hefur ósætti myndast um starfsemi Íslensku óperunnar, sér í lagi þegar kemur að skörðum fjárhagslegum hlut söngvarastéttarinnar sjálfrar. Þetta skýtur skökku við því söngvararnir eru og verða alltaf kjarni og útgangspunktur hverskonar óperustarfsemi (sbr. markmið stofnenda ÍÓ). Starfsvettvangurinn er skapaður svo söngvarar geti starfað við fag sitt, og er forsenda þess að óperuunnendur fái notið óperusýninga í sínu heimalandi.

Það er því krafa félagsmanna Klassís, að hagur söngvara verði gerður að forgangs- atriði og útgangspunkti við stofnun nýrrar þjóðaróperu og að ný sviðslistalög verði uppfyllt, þar sem óperuflutningur er færður á sama stall og starfsemi Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins, stofnana sem hafa fjölda listafólks í föstum stöðugildum.

Því liggur í augum uppi að skapa þurfi söngvaraflokk (e. ensemble), þar sem söngvarar fái þjálfun og tækifæri til að þroska sig og sinna starfi sem þeir eru menntaðir til. Þeir gætu sungið stærri og smærri hlutverk og sinnt margbreytilegum gerðum og stíl- tegundum listformsins. Það þarf að tryggja starfsvettvang fyrir óperukór sem jafnan samanstendur af hámenntuðum og þjálfuðum óperusöngvurum sem einnig geta sungið einsöngshlutverk. Þetta kæmi ekki í veg fyrir að hægt væri að ráða inn gestasöngvara til lengri eða skemmri tíma á ráðningarsamningum. Söngflokkurinn sjálfur væri þjóðaróperan, kjarni starfseminnar. Listrænt frelsi slíks fyrirkomulags væri meira en nú er hjá Íslensku óperunni og myndi byggja upp frjóan vettvang fyrir þróun og nýsköpun á sviði óperu. Flokkurinn gæti, eftir því sem við á, átt í samstarfi við aðrar menningarstofnanir og menntastofnanir á jafningjagrundvelli, þar sem tryggt yrði að farið væri eftir samningum, s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið, Íslenska dansflokkinn, Ríkisútvarpið, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Leikfélag Akureyrar og hópa og hátíðir á borð við Óperudaga og Sönghátíð í Hafnarborg, Caput, Brák og Elektru, auk þess að ferðast um landið og taka þátt í hátíðum erlendis.

Aukinheldur væri nefndinni uppálagt að nýta sér þá sérþekkingu á faginu sem býr í óperusöngvurunum sjálfum og kalla sem flesta þeirra til að gefa nefndinni álit. Með kærri kveðju og von um að þetta ferli skili sér í farsælli framtíð óperulistformsins á Íslandi og jafnframt tryggari starfsvettvangi íslenskra óperusöngvara,

F.h. Klassís – Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, Ása Fanney Gestsdóttir, formaður Klassís