Yfirlýsing vegna stöðu frumvarps um Þjóðaróperu

Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi (Klassís) ítrekar eindreginn og einlægan stuðning sinn við frumvarp um Þjóðaróperu. 

Margra ára fagleg vinna og samráð þvert á listasamfélagið liggur að baki frumvarpinu og nýtur það víðtæks stuðnings eins og umsagnir um frumvarpið bera vitni um. Þrátt fyrir að ekki hafi gefist tími á nýliðnu þingi til að afgreiða frumvarpið, fögnum við yfirlýsingu menningar- og viðskiptaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, um að frumvarpið verði lagt fram á ný á haustþingi og að fyrsta ár starfsemi Þjóðaróperu sé þegar að fullu fjármagnað.

Það hefur verið eitt helsta keppikefli innan óperugeirans á Íslandi að tryggja starfsumhverfi söngvara. Verði frumvarpið að lögum mun það verða mikið framfaraskref fyrir stétt klassískra söngvara. Til verða fastar stöður fyrir einsöngvara og kórsöngvara, og lagt er upp með mun meiri starfsemi en verið hefur undanfarin ár. Einnig mun samstarf við grasrót og landsbyggðina bjóða upp á spennandi möguleika og nýta betur þá auðlind sem býr í okkar klassísku söngvurum um land allt. Óperustúdíó í samstarfi við LHÍ veitir tækifæri fyrir unga söngvara til að þjálfa sig og þroska sem listafólk. Stofnun Þjóðaróperu er mikilvægt fyrsta skref í átt að nýrri framtíðarsýn fyrir sviðslistir á Íslandi.

Klassís, sem telur tæplega 140 söngvara sem lokið hafa löngu og sérhæfðu háskólanámi í söng, telur afar brýnt að sköpuð séu fagleg umgjörð um óperuflutning og tryggur starfsvettvangur fyrir söngvara. Klassís ítrekar því mikilvægi þess að Alþingi taki frumvarpið snemma til meðferðar á haustþingi, svo ekki verði frekari töf á því að söngvarar geti starfað við sinn fagvettvang á ný í nýrri og glæsilegri Þjóðaróperu.

Stjórn Klassís